Tölvufíkn

Upplýsingavefur um tölvufíkn

Mikilvægasta ráðið sem hægt er að
gefa foreldrum, "Ekki leyfa börnum
ykkar að hanga ótakmarkað í
tölvunni. Ef þið gerið það munu
börnin nota tölvur hömlulaust. Gott
er að tengja tölvuna við eitthvað.
T.d. að leyfa tölvunotkun ef þau
hafa unnið einhver ákveðin hús-
verk. Þannig læra þau að taka
ákveðna ábyrgð og að tölvan er
ekki sjálfsagður hlutur, heldur
eitthvað sem þau þurfa að vinna sér
inn."

Um tölvufíkn - Unglingar og börn - Fullorðnir - Tegundir - Ertu fíkill? - Ráðleggingar

Ýmsar ráðleggingar

Ýmis ráð eru í boði en sama hversu góð ráðin eru þá byggist þetta allt á því að viðkomandi vilji takast á við vandann. Án viljans gerist ekkert.

Á þessari síðu er að finna:
Sjálfshjálp fyrir þá sem vilja losa sig undan tölvufíkninni
Breyttu tölvunotkun þinni skref fyrir skref
Hugleiðingar fyrir þá sem vilja minnka tölvunotkun
Meðferðir gegn tölvufíkn og ráðgjöf
Stuðningshópar
Nokkrar ráðleggingar varðandi börn og netið
Hvernig hægt er að hjálpa unglingi sem glímir við tölvufíkn
Nokkur ráð fyrir þá sem vilja hjálpa tölvufíklum

Sjálfshjálp fyrir þá sem vilja losa sig undan tölvufíkninni

Það eru nokkur skref sem hægt er að taka til að ná tökum á tölvunotkuninni. Sum þeirra er hægt að taka einn og óstuddur en mikilvægt er að fá einnig utanaðkomandi aðstoð. Það er nefnilega allt of auðvelt að falla aftur í sama farið, sérstaklega ef tölvan er órjúfanlegur þáttur í lífinu. Til dæmis ef þú vinnur við tölvur eða þarft að nota þær við ýmsar tómstundir.

Þekkja undirliggjandi vandamál sem geta ýtt undir tölvufíkn
Ef þú átt í vanda með t.d. þunglyndi, streitu eða kvíða, þá getur verið að tölvunotkunin sé leið til að milda þessi vandamál. Hefur þú átt í vandræðum með aðrar fíknir? Er tölvunotkunin að deyfa þig að einhverju leyti líkt og alkóhól eða lyf gera? Reyndu að meta það hvort þú þurfir að takast á við þessi vandamál til þess að geta tekist á við tölvufíknina.
Læra að takast á við hlutina
Mögulega hefur þú notað tölvuna til að takast á við streitu eða neikvæðar tilfinningar. Ef til vill áttu erfitt með að tengjast öðrum vegna t.d. mikillar feimni. Með því að byggja upp færni á þessum sviðum er mögulega hægt að takast á við vandamálin
Efla félagsleg tengsl
Því fleiri sem þú þekkir því minni þarftu að nota netið til félagslegra athafna. Taktu frá tíma fyrir fjölskyldu og vini, skildu símann eftir og gerðu eitthvað með þeim. Ef feimni er vandamálið væri hægt að taka þátt í einhverskonar tómstundum sem þú hefur áhuga á. Það hjálpar þér að eiga samskipti við aðra sem hafa svipuð áhugamál.

Breyttu tölvunotkun þinni skref fyrir skref

Í fyrsta og síðasta lagi.... þá þarftu að vilja að takast á við tölvunotkunina. Ef þú vilt það ekki, þá er ekkert hægt að gera. Ef þú virkilega vilt takast á við vandann þá er hægt að gera ýmislegt. Sumt er einfalt, annað er erfitt. Takist þér að ná tökum á tölvufíkninni, þá fara undraverðir hlutir að gerast í lífi þínu.
Þegar tekið er á vandamálum í lífinu er oft gott að skoða bókhaldið vel. Ef þú vilt komast að því í hvað peningar þínir fara getur þú fylgst með reikningunum í nokkra mánuði og þá er komin ágæt mynd af fjármálunum. Það sama gildir um tölvunotkun.

Haltu dagbók um tölvunotkunina. Skráðu niður hvenær þú ert í tölvunni og hvað þú ert að gera. Hugleiddu svo eftirfarandi:
• Er tölvunotkun meiri á ákveðnum tímum dags?
• Er eitthvað sem gerði það að verkum að þú fórst í tölvuna og varst lengur en þú áætlaðir?
• Er tölvunotkunin farin að taka tíma frá svefni, vinnu eða félagslífinu?

Settu þér raunhæf markmið um tölvunotkun. Hér eru nokkur dæmi:
• Ákveddu fyrirfram hversu lengi þú ætlar að vera í tölvunni.
• Ákveddu fyrirfram hvenær þú ætlar að vera í tölvunni.
• Setja ákveðinn tíma sem slökkt er á öllum tölvum. Heimilistölvu, leikjatölvu, spjaldtölvu og snjallsíma.
• Fara bara í tölvuna þegar þú hefur lokið ákveðnum verkum. Heimavinna, þvottur, uppvask, þegar börnin eru farin að sofa.
• Láta tíma með fjölskydu og vinum hafa forgang.

Finndu þér uppbyggileg áhugamál. Ef þér leiðist eða ert einmana, þá er erfitt að freistast ekki til þess að fara aftur í tölvuna. Finndu þér eitthvað annað að gera. Bjóddu vini í heimsókn, farðu á námskeið eða farðu út að ganga/hjóla/hlaupa með einhverjum.

Upp

Hugleiðingar fyrir þá sem vilja minnka tölvunotkun

• Spurðu sjálfan þig, "Er ég að missa af einhverju meðan ég er í tölvunni?"
Skrifaðu niður þessi atriði og minnkaðu notkunina ef þú vilt ekki missa af þeim.
• Settu upp raunsætt tölvunotkunar plan og stattu við það. Taktu a.m.k. 5 mín. pásur frá tölvunni hvern klukkutíma og gerðu eitthvað annað.
• Breyttu daglegri tölvurútínu. Ef þú eyðir kvöldunum í tölvur, reyndu þá t.d. að vera minna á kvöldin og meira á morgnanna.
• Reyndu að umgangast fólk sem er slétt sama um tölvur. Allavega þá sem eru ekki ofnota tölvur. Notaðu tímann til að sjá að lífið er ekki ennþá orðið að fullu nettengt.
• Haltu tengslum við raunverulegt líf. Farðu á söfn, bíó, leikhús eða lestu góða bók.
• Notaðu tölvuna sem tæki. Ekki fara ómarkvisst í tölvuna. Ákveddu hvað þú ætlar að gera og hvert markmiðið er. Þegar því markmiði er lokið, þá slekkur þú á tölvunni. Hér er náttúrulega ekki verið að tala um að spila Eve online þangað til persónan er búin að fullþjálfa öll "skills" en það tekur um 15 ár.

Meðferðir gegn tölvufíkn og ráðgjöf

Meðferð og ráðgjöf gegn tölvufíkn getur hjálpað mikið. Slíka meðferð er hægt að fá hjá sálfræðingum eða félagsráðgjöfum. Í slíkri meðferð er oft tekið á öðum undirliggjandi vandamálum eins og stressi, kvíða, þunglyndi eða almennri vanlíðan.

Ef samband við maka eða nánustu ættingja verður fyrir barðinu á tölvufíkn gæti fjölskylduráðgjafi eða hjónabandsráðgjafi hjálpað þér að byggja aftur tengsl þín við þína nánustu.

Stuðningshópar

Þar sem tölvufíkn er frekar ný af nálinni þá hafa ekki enn verið settir upp stuðningshópar á Íslandi nema þá í mjög litlum mæli. Til eru litlir lokaðir hópar fyrir þá sem eru lengst leiddir.

Það væri gott ef 12. spora samtök yrðu sett á laggirnar fyrir tölvufíkla og aðstandendur þeirra en slík samtök hafa hjálpað fíklum á ýmsum sviðum.

Til eru stuðningshópar á netinu en slíkir hópar eru ekki eins áhrifamiklir og hópar þar sem þú hittir fólk.

Upp

Nokkrar ráðleggingar varðandi börn og netið

Það er töluvert auðveldara fyrir foreldra að takast á við tölvuvanda þegar börn eru ung. Það er í rauninni skylda hvers foreldris að setja einhver mörk og kenna barninu að umgangast tölvur.

Ræddu við barnið um ofnotkun á tölvunni
Reyndu að finna út hvaða ástæður eru fyrir því að barnið eyðir svo miklum tíma í tölvu. Ef barnið er að nota tölvuna sem huggun eða til að flýja einhver vandamál, þá þarf að taka á því.
Sjáðu til þess að barnið sé ekki í tölvunni í lokuðu rými
Það sjálfkrafa veldur því að tölvunotkun minnkar og auðveldara er að fylgjast með tölvunotkuninni.
Settu lykilorð á tölvuna
Það er ekkert að því að læsa tölvum. Þannig er hægt að fylgjast algerlega með því hvenær barnið er í tölvunni. Til dæmis væri hægt að hafa þá reglu að það fær ekki að fara í tölvuna fyrr en heimavinnu er lokið.
Reyndu að finna út hvað það er sem barnið sækist í
Eru það leikir, spjall, bíómyndir eða flakka um á netinu. Sjá nánar um mismunandi tegundir tölvufíknar.
Ef barnið hefur gaman að því að hanga á uppbyggilegum síðum sem eru löglegar og öruggar þá ætti það ekki að vera mikið vandamál
Að nota netið í þeim tilgangi að læra eitthvað eða öðlast færni í t.d. forritun þá ætti frekar að hrósa börnum í stað þess að hefta þau.
Sum börn fara í gegnum tímabil þar sem þau hanga löngum stundum á spjallþráðum en fara svo yfir á uppbyggilegri vefi
Ekki hafa áhyggjur strax. Tölvan er ekki hættulegt tæki.
Settu skýr tímamörk og stattu við þau
Ef þú stendur ekki við þessi mörk sem eru sett þá getur það orðið ávísun á stríðsástand seinna meir þegar hömluleysið er orðið algert.
Fylgstu með því hvað barnið er að gera í tölvunni
Eitt af því er að skoða "browser history". Það er ekkert að því að foreldri fylgist með hvar barnið sitt hefur verið. Það er partur af uppeldinu.
Ekki nota svokallað "keylogger"
Þessi forrit fylgjast algerlega með því hvað er stimplað inn og er heldur mikil árás á einkalífið. Við myndum ekki hlera símtöl barna okkar eða lesa dagbók þeirra án leyfis. Til eru aðrar leiðir til að stýra tölvunotkun og fyrirbyggja ýmis vandamál.
Keyptu eða notaðu frí forrit sem hefta tölvunotkun
Í Windows 7 er innbyggt kerfi til að stýra tölvunotkun. Hægt er að fá forrit sem loka á netið á ákveðnum tímum eða loka á ákveðnar síður. Það er til dæmis hægt að láta slík forrit loka á allar síður en svo getur barnið beðið um leyfi til að fara á einhverja síðu, foreldri getur skoðað síðuna og opnað fyrir hana ef hún er í lagi. Hér er hægt að sjá nokkuð góðan lista yfir forrit.
Ekki láta tölvuna vera sjálfsagðan hlut
Foreldrar ættu að hafa tölvuna sem eitthvað sem þarf að vinna fyrir í stað þess að hún sé sjálfsagður hlutur. T.d. taka þátt í húsverkum, læra heima, fara fyrst út að leika og þar fram eftur götunum
Hjálpaðu barninu að finna sér eitthvað annað gera
Að losna úr viðjum fíknar er erfitt og enn erfiðara ef barn þitt finnur sér ekkert að gera. Hjálpaðu því að komast í tómstundir eða taka þátt í félagslegum athöfnum.
Passaðu að hafa afleiðingar ef barn brýtur gegn settum tölvureglum
Hægt er að missa tölvutíma, stytting tíma, ekkert net o.s.frv. Einnig er hægt að nota tölvuna sem agatæki. Ef barn skrópar í skólanum þá er hægt að fjarlægja tölvutíma sem refsingu.
Varaðu barnið við of mikilli tölvunotkun og bentu því á að slíkt getur leitt til þess að tölvan verði algerlega fjarlægð
Mikilvægt er að setja þetta ekki fram sem hótun heldur sem afleiðingu hömluleysis.
Foreldri verður ALLTAF að vera samkvæmt sjálfu sér
Ef reglur eru settar og þeim ekki framfylgt, þá eru þær algerlega tilgangslausar og barnið lærir að það þarf ekki að fylgja þeim reglum sem eru settar.

Upp

Hvernig hægt er að hjálpa unglingi sem glímir við tölvufíkn

Foreldrar þurfa að átta sig á að það er fín lína á milli þess að vera of strangur og of linur í tölvuuppeldinu. Of strangt kerfi getur snúist í höndum foreldra. Foreldrar eiga að fylgjast með notkun barna og grípa inn í ef í óefni stefnir. Ef um ungling er að ræða sem sýnir einkenni tölvufíknar þá eru nokkur atriði sem hægt er að gera:
Hjálpaðu unglingnum að finna sér eitthvað annað gera
Hjálpaðu honum að komast í tómstundir eða taka þátt í félagslegum athöfnum.
Fylgstu með tölvunotkuninni og settu skýr mörk
Ekki leyfa tölvunotkun í lokuðu rými. Settu tímamörk. Mikilvægt er að setja gott fordæmi. Ef þú getur ekki sleppt tölvunni, þá eru miklir möguleikar að unglingurinn geti það ekki heldur.
Hægt er nota öpp til að stjórna snjallsímanotkuninni
Það getur verið mjög erfitt að fylgjast með snjallsímanotkun. Til eru ýmis smáforrit sem setja notandanum ákveðnar skorður. T.d. getur ekki sent skilaboð eða farið á netið á ákveðnum tímum. Best er að fara í "app search" og leita í "parental control".
Talaðu við unglinginn og reyndu að finna undirliggjandi vandamál
Of mikil tölvunotkun getur verið birtingarmynd undirliggjandi vandamála. Á unglingurinn erfitt með að falla í hópinn? Hafa verið róttækar breytingar í lífi unglingsins, t.d. flutningur eða skilnaður sem valda streitu?
Leitaðu hjálpar
Unglingar gera oft uppreisn gegn foreldrum sínum og eru þá meiri líkur á að þeir hlusti á utanaðkomandi aðila. Þetta þarf ekki endilega að vera sálfræðingur eða ráðgjafi. Þetta gæti verið þjálfari, kennari, læknir eða fjölskyldumeðlimur sem unglingurinn ber virðingu fyrir. Ekki óttast að fá faglega ráðgjöf ef þú hefur áhyggjur af unglingnum.

Nokkur ráð fyrir þá sem vilja hjálpa tölvufíklum

• Vertu góð fyrirmynd. Höndlaðu vel þína eigin tölvunotkun. Sá sem er tölvufíkill hlustar ekki á ráðleggingar þess sem hefur sjálfur ekki stjórn.
• Hjálpaðu tölvufíklinum að kynnast fólki sem getur notað tölvur á skynsamlegan hátt.
• Hjálpaðu viðkomandi að taka þátt í tómstundum þar sem tölvan er ekki með.
• Láttu vita ef þú hefur áhyggjur af tölvunotkun hjá viðkomandi. Bregðist hann illa við þá er lítið hægt er að gera.
• Styddu við bakið á tölvufíkli sem vill takast á við vandann.
• Gott er að hvetja viðkomandi til að fá hjálpa frá fagaðila.

Upp