Tölvufíkn

Upplýsingavefur um tölvufíkn

Til eru fjórar algengar tegundir
reynslusagna en þær hjálpa mis-
munandi hópum.

-Saga fíkils sem er ekki í bata
Hjálpar sem forvörn fyrir aðra.

-Saga fíkils sem er í bata
Gefur fíklum von um bata.

-Saga aðstandanda fíkils sem er ekki
í bata
Gefur öðrum aðstandendum
stuðning.

-Saga aðstandanda fíkils sem er í
bata.
Gefur aðstandendum fíkla von.

Reynslusögur - Umsagnir - Spurt og svarað - Tenglar - Þakkir

Innsendar reynslusögur um tölvufíkn

Ef þú hefur sögu að segja frá þér sem fíkli eða aðstandana fíkils þá sendu hana til birtingar. Nafnleynd er alltaf nema beðið sé um annað.

Saga Þorsteins. "Tölvan var ekki lengur í fyrstu 5 sætunum"

3. júní 2014 | Þorsteinn K. Jóhannsson

Árið 1979, þegar ég var 9 ára, sá ég Space Invaders og Pac Man í fyrsta skipti í spilakassa á Flugstöðinni í Reykjavík. Ég var alveg heillaður og eyddi löngum stundum bara að horfa á skjáinn og sjá aðra spila. Fyrstu vandræðin sem ég lenti í var þegar ég var 11 ára og hafði þá eytt öllum blaðburðarpeningunum í tölvuleikjakassa. Ég var þarna strax orðinn fíkill, ekkert annað komst að hjá mér.

Þegar ég var 14 ára fékk ég Sinclair Spectrum í fermingjargjöf. Ég hékk mikið á Tralla við Suðurlandsbraut en það var spilakassastaður. Allir mínir peningar fóru í að spila þar og var í raun það sem olli því að ég klúðraði námi mínu í Iðnskólanum, þá 16 ára gamall. Þegar ég var ekki að leika mér í Tralla, þá hékk ég í Sinclair Spectrum. Ég gersamlega hertók sjónvarpið, gekk illa í öllu, hugsaði ekki um eigin heilsu og eignaðist bara tölvunördavini.

Árið 1990 var ég kominn með PC tölvu og netið. Þá var fjandinn laus. Ég gat verið 18 tíma á dag þess vegna og meira að segja tók ég stundum sólarhringinn á þetta og það án þess að drekka kaffi eða nota önnur örvandi efni. Í tölvunni gleymdi ég mér alveg og áhyggjur voru á bak og burt. Í tölvunni gerði ég marga góða hluti, þ.e.a.s. í tölvuleikjaheiminum. Varð t.d. einn frægasti smiðurinn í Ultima Online og enn þann dag í dag eru að seljast hlutir á netinu sem hann bjó til. Ég gersamlega hellti mér út í tölvuheiminn og hinn raunverulegi heimur sat á hakanum.

Þegar ég var orðinn 30 ára var ég með ansi góða þekkingu á tölvuleikjum og var ráðinn sem deildarstjóri yfir tölvuleikjadeildinni í BT Skeifunni. Þar var ég aldeilis kominn í feitt enda vildi verslunarstjórinn að ég prófaði sem flesta leiki. Ekki ósvipað því þegar alkinn fær tilskipun um að smakka allar sendingar sem Ríkið flytur inn. Á þessum tíma hafði ég klúðrað tveimur samböndum og hafði verið án maka í 5 ár enda hafði ég engan áhuga á því að fá slíkt aðskotadýr í mína tölvurútínu.

Þegar ég var 33 ára var ég búinn að klúðra svo mörgu í lífi mínu (nema að vinna í tölvuleikjadeild BT, þar var ég að brillera) þá buðu foreldrar mér að flytja heim tímabundið fyrst ég hafði sótt um í stúdentsnámi.

Þegar ég var 34 ára var staðan mín ekkert sérlega góð, ég bjó heima hjá foreldrum, átti ekkert nema geðveika tölvu, stórskuldugur og ómenntaður. Átti engin börn, enga konu, ekki neitt. En mér var eiginlega sama... því ég var alveg að meika það í vinnunni og spilaði 10 tíma á dag hið minnsta.

Svo kom að vendipunkti í lífi mínu. Ég var beðinn um að vera viðstaddur miðnætursölu í BT Smáralind á uppfærslu á fjölspilunarleiknum Dark Ages of Camelot. Mér brá heldur í brún þegar ég sá kúnnahópinn sem beið. Þreyttir karlmenn frá 20-40 ára. Illa til fara, dökkir undir augum og einhver grámi yfir andliti þeirra. Ég fór að hugsa, "Bíddu... þetta eru eins og einhver dópistasamkoma. Hvað er í gangi?". Upp frá þessari stundu fór ég að velta því fyrir mér hvort þetta gæti mögulega verið fíkn. Þetta voru allavega klárlega fíklar... og ég sem hélt í einlægni að ég væri bara svona rosalega mikill áhugamaður um tölvuleiki.

Upp frá þessari stundu prófaði ég að slökkva á tölvunni. Hulunni var svipt og ég fór að sjá lífið í nýju ljósi. Ég fylltist fljótlega kvíða og þunglyndi yfir því hvernig ég hefði sólundað lífi mínu. Hvernig í ósköpunum ætti ég að ná mér í konu... búandi heima hjá foreldrum og barnlaus? Ekki mjög spennandi eintak. Ég sótti aftur í tölvuna en núna með öðru hugarfari. Tölvan var tekin úr fyrsta sæti og ég fór að setja aðra hluti í efstu sætin, eins og fjölskyldu, vini, skóla, vinnu og eigin heilsu.

Þegar þetta er skrifað er ég búinn að vera 10 ár í sambúð, á tvö börn með þeirri konu en hún átti tvö fyrir svo ég er þannig séð fjögurra barna faðir. Við höfuð borgað niður allar skuldir og eigum skuldlausan bíl. Ég hef lokið stúdentsnámi, B.Ed. í kennslufræðum, M.Ed. í kennslufræðum, diplóma í M.Ed. í stjórnunarfræði menntastofnanna og er núna að klára rafmangsfræðina sem ég klúðraði í spilakassastaðnum Tralla á sínum tíma.

Ég er alls ekki hættur í tölvunni, enda gæti ég ekki haldið uppi svona síðu ef svo væri. En tölvan er ekki lengur í fyrstu 5 sætunum. Auðvitað dett ég stundum á kaf í tölvuna en það gerist yfirleitt ef mikið álag er á mér. En vitneskjan um það að ég sé tölvufíkill og að ég sé reiðubúinn til að viðurkenna það, hjálpa mér að komast aftur á réttu brautina.