Tölvufíkn

Upplýsingavefur um tölvufíkn

Hópmeðferð við tölvu- og netfíkn
fer af stað í september 2018.
Nánari upplýsingar veita Þorsteinn
og Gunnar.

Þorsteinn K. Jóhannsson
Þorsteinn K. Jóhannsson
Framhaldsskólakennari og
tölvufíkill í bata
tkj@tskoli.is

Gunnar Örn Ingólfsson
dr. Gunnar Örn Ingólfsson
sálfræðingur
gunnar@salrvk.is

Verið velkomin

Þessi síða er tileinkuð tölvufíkn og hefur að geyma ítarlegar upplýsingar um það efni. Efni síðunnar hentar þeim sem hafa misst stjórn á tölvu-
notkun sinni, aðstandendum og starfsmönnum sem vinna með ungmenni.

Hópmeðferð við tölvu- og netfíkn fer af stað í september 2018

Smelltu hér til að sækja um!

Þetta er í fyrsta skiptið sem hópúrræði fer af stað á Íslandi við tölvu- og netfíkn. Verkefnið er samstarfsverkefni Félags áhugafólks um tölvu- og netfíkn, Hugarafls, Hins hússins, Janusar endurhæfingar og Rauða krossins á Íslandi. 
Úrræðið er þátttakendum að kostnaðarlausu.  Fyrsti meðferðarhópurinn fer af stað í lok september og stendur yfir í átta vikur. Eftir áramót verða tveir hópar.  Í hverjum meðferðarhópi verða sex einstaklingar. Úrræðið hentar fyrir 18 ára og eldri. Hægt er að sækja um á http://tolvufikn.is/umsokn.php
Unnið verður úr innsendum umsóknum eftir 25. ágúst og hefst úrræðið í lok september.  Vonast er til að tveir hópar geti síðan farið af stað eftir áramót og aðrir tveir um haustið 2019.  Úrræðið verður til húsa hjá Janus endurhæfingu, Skúlagötu 19, 101 Reykjavík.
Meðfram úrræðinu verður boðið upp á opna stuðningshópa.
Þorsteinn Kristjáns Jóhannsson, formaður Félags áhugafólks um tölvu- og netfíkn, fyrirlesari um tölvufíkn og tölvufíkill í bata og dr. Gunnar Örn Ingólfsson, sálfræðingur sjá um framkvæmd verkefnisins fyrir hönd samstarfsaðila.

Tölvufíkn, hluti nútímasamfélags

Þróun mannkyns :)Tölvunotkun almennings stórjókst árið 1984 þegar Sinclair Spectrum kom til Íslands. Það var svo í kringum 1990 að netið opnaðist fyrir almenningi og í kjölfarið varð sprenging í sölu PC tölva (hefðbundinna heimilistölva). Í dag má gera ráð fyrir að lang flestir Íslendingar hafi aðgang að nettengdri tölvu og í mörgum tilfellum eru fleiri en ein tölva á heimilinu. Þá er verið að tala um snjallsíma, spjaldtölvur, fartölvur, borðtölvur og ýmsar sérhæfðar leikjatölvur, t.d. Playstation, Nintendo ofl. Með auknum fjölda tölvunotenda þá óumflýjanlega eykst fjöldi þeirra sem missa stjórn á tölvunotkun sinni.

Tölvufíkn er orð sem kemur oftar fyrir í umræðunni í dag en fyrir 10 árum og fyrir 20 árum þekktist þetta hugtak ekki. Ekki er óeðlilegt að slíkt gerist því landslagið í tölvunotkun hefur breyst mikið. Oftar en ekki standa foreldrar ráðþrota gagnvart þeim vanda sem verður þegar börn þeirra verða hömlulaus í tölvunotkun sinni. Einnig er farið að fjölga þeim tilfellum þar sem fólk er að átta sig á því að það eigi við vanda að stríða þegar tölvan er annars vegar.


Þessi síða er hönnuð til að hjálpa foreldrum barna í tölvuuppeldinu, aðstoða tölvufíkla að takast á við fíknina og umfram allt, fræða almenning um tölvufíkn. Ef slík fræðsla gerir það að verkum að einhverjir tölvufíklar komast á beinu brautina eða að foreldrar ná að vinna gegn hömluleysi barna og unglinga í tölvum, þá er tilgangnum náð.

Höfundur síðunnar, Þorsteinn K. Jóhannsson, hefur glímt við tölvufíkn frá 1979 og það var ekki fyrr en árið 2003 að hann fór að taka á sínum málum. Þorsteinn er ekki hættur í tölvunni en hún er ekki lengur efst í forgangsröðinni. Þorsteinn hefur haldið forvarnarfyrirlestra gegn tölvufíkn frá 2006 og fengið góðar undirtektir. Það var svo árið 2013 að Þorsteinn ákvað að setja upp heimasíðu í þeirri von að hún styrki málefnið. Hægt er að skoða reynslusögu Þorsteins hér á síðunni.